Innlent

Framtíð R-listans að ráðast

Það gæti ráðist á fundi viðræðunefndar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna í dag hvort R-lista flokkarnir bjóða áfram sameiginlega fram fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Hvöss skeyti hafa gengið á milli samfylkingarmanna og framsóknarmanna síðustu daga og virðist Samfylkingin ekki sætta sig við tillögur framsóknarmanna frá því í síðustu viku. Þeir vilja nú fleiri fulltrúa í sinn hlut í ljósi stærðar sinnar í skoðanakönnunum, á kostnað framsóknarmanna eða Vinstri grænna, eða jafnvel beggja. Vinstri grænir leggja hins vegar áherslu á jafnræði milli allra flokkanna og hafa fulltrúar þeirra í nefndinni ekki heimild til að semja um annað. Þá munu framsóknarmenn ekki sætta sig við færri en tvo fulltrúa. Tillögur flokksins eru annars vegar að Samfylkingin fái þrjá borgarfulltrúa og borgarstjórann, Framsóknarflokkurinn fái tvo og Vinstri grænir þrjá, eða að Samfylkingin fái fjóra fulltrúa, Framsóknarflokkur tvo og Vinstri grænir tvo og að borgarstjóri kæmi auk þess úr þeirra röðum. Eftir því sem fréttastofan kemst næst þykir Samfylkingunni hvorugur kosturinn fýsilegur en Vinstri grænir hafa ekki alveg lokað á þessar hugmyndir. Þótt menn bíði spenntir eftir því að málið verði leitt til lykta á fundinum í dag er rétt hugsanlegt að því verði skotið á frest á kostnað umræðu um málefnastefnu R-listans fyrir komandi kosningar, ef samstarfið helst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×