Innlent

Össur vill opið prófkjör

Össur Skarphéðinsson vill að prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík verði opið. Þannig segir hann að leið myndi opnast fyrir Dag B. Eggertsson til að vera á listanum. Vinstri grænir og Framsókn hafa þegar ákveðið að hafa prófkjör með sínum hætti sem útilokar sameiginlegt framboð flokka Reykjavíkurlistans. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, mælist því til þess að Samfylkingin í Reykjavík haldi opið prófkjör sem allir geta kosið í, svo framarlega að þeir styðji R-listann. Sömuleiðis vill hann að óháðir frambjóðendur eins og Dagur geti tekið þátt í því. Myndi það um leið koma í veg fyrir að Dagur, sem er í engum flokki, lokist af í aðskildum prófkjörum flokkanna. Þannig má segja að Össur mælist til þess að í prófkjörinu verði kosið um borgarstjórnarefni R-listans, þar sem Dagur hefur kost á því að keppa um hítuna við Stefán Jón Hafstein og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, núverandi borgarstjóra. Kjósendur gætu þannig fengið óháðan borgarstjóra, beri Dagur sigur úr bítum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×