Innlent

Vilja opið prófkjör

Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-listans, segir hugmyndir Össurar Skarphéðinssonar um opið prófkjör Samfylkingarinnar sem fram koma á heimasíðu hans í dag ekki vera nýjar af nálinni. Slíkt hafi verið gert tvisvar áður á síðustu árum og hefur hann verið talsmaður þess að sem flestir komi að prófkjöri. Vinstri - grænir og Framsóknarflokkurinn í borginni hafa ákveðið að hafa prófkjör með sínum hætti sem útilokar sameiginlegt prófkjör flokka Reykjavíkurslistans. Þar sem svo er komið segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, á heimasíðu sinni í dag að hann vilji að framboð Samfylkingarinnar í Reykjavík verði galopið. Hann vill að að allir þeir sem styðja Reykjavíkurlistann geti kosið. Sömuleiðis bendir hann á að þannig geti óháðir frambjóðendur, eins og Dagur B. Eggertsson, tekið þátt. Þannig gæti Dagur hugsanlega keppt um að verða borgarstjóraefni við Stefán Jón Hafstein og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, núverandi borgarstjóra. Stefán Jón segir hugmyndina ekki vera nýja af nálinni og segist hafa stutt slíkar hugmyndir bæði í orði og í verki. Hann kveðst hafa komið að skipulagningu prófkjörsins 1998 þegar óflokksbundnir menn eins og Hrannar B. Arnarson og Helgi Pétursson komu inn á listann. Sömuleiðis þegar Samfylkingin var með opna og víðtæka þátttöku þar sem Jóhanna Sigurðardóttir vann glæstan sigur. Því sé hann fylgjandi þessu líkt og Össur. Spurður hvernig honum lítist á að Dagur geti hugsanlega blandað sér í samkeppnina um að verða borgarstjóraefni R-listans segir Stefán að honum lítist vel á það. Dagur komi til greina eins og allir aðrir. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×