Innlent

Stefnir ekki að borgarstjórastól

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans, segist ekki stefna að því að verða borgarstjóraefni R-listans og hefur hann enga ákvörðun tekið í þeim efnum. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sagði á heimasíðu sinni í gær að hann vilji að framboð Samfylkingarinnar í Reykjavík verði opið. Hann vill að allir þeir sem styðji Reykjavíkurlistann geti kosið. Sömuleiðis bendir hann á að þannig geti óháðir frambjóðendur, eins og Dagur B. Eggertsson, tekið þátt. Dagur er sammála Össuri að huga þurfi að því að sem breiðastur hópur fái aðkomu. Það sé hins vegar ótímabært að tala um einstaka persónur eða nöfn. Fyrst eigi að klára vinnuna sem nú fari fram og næsta vers sé svo að stilla upp sigurstranglegum hópi. Dagur vill ekki tjá sig um það hvort hann myndi taka þátt í prófkjöri Samfylkingar, yrði það opið. Og hann segist alls ekki skilja þetta þannig að Össur sé að leggjst á sína sveif umfram einhverja aðra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×