Sport

Guðjón Þórðarson réð ekki Staunton

Steve Staunton, sem spilað hefur meðal annars með Liverpool, Aston Villa og Coventry á ferli sínum, vildi komast að hjá Notts County sem þjálfari og leikmaður, en Guðjón Þórðarson ákvað að ráða hann ekki til starfa.  "Ég gat farið aðrar leiðir sem mér fannst skynsamlegri. Ég fékk hingað unga leikmenn sem ég þurfti ekki að greiða fyrir, og svo er ég með Mike Whitlow, fyrrverandi samherja Guðna Bergssonar hjá Bolton, en hann mun aðstoða mig við þjálfun og er þar að auki góður leikmaður." Guðjón segir undirbúningstímabilið hjá Notts County hafa gengið vel, en leikmenn félagsins hafa æft tvisvar á dag í nokkrar vikur. "Það er mikið leikjaálag í neðri deildunum á Englandi, og til þess að þola það verða leikmenn að vera í góðu líkamlegu ástandi. Æfingarnar ganga vel og ég er farinn að hlakka til þess að mótið hefjist." Leikmannahópurinn hjá Notts County er ekki stór en Guðjón vonast til þess að hann dugi á komandi tímabili. "Ég er með tuttugu og tvo leikmenn núna, og það gætu komið tveir leikmenn til viðbótar en það er ekkert víst. Ég ætla mér að nota þessa leikmenn sem ég er með núna á tímabilinu og þess vegna æfum við mikið núna. Ég held að leikmenni taki þessu æfingaálagi ágætlega því þeir vita að þetta er nauðsynlegt. Það er erfitt að spila fjörutíu og sex deildarleiki á tímabili og taka að auki þátt í þremur bikarkeppnum. Þess vegna er ég á því að æfingarnar þurfi að vera erfiðar á þessum tíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×