Sport

Það er erfitt að eyða

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir það vera erfiðasta starf í heimi að þurfa að eyða pening frá Roman Abramovich í nýja leikmenn. Mourinho hefur verið þrettán mánuði í starfi hjá Chelsea og hefur á þeim tíma, ef kaupin á Mickael Essien sem væntanlega verður gengið frá í næstu viku er tekin með, þá hefur Mourinho eytt samtals 128 milljónum punda í nýja leikmenn. Það gerir 13.000 pund á hverjum einasta klukkutíma sem hann hefur verið við stjórn, eða rétt um ein milljón íslenskra króna. "Að kaupa leikmenn fyrir Chelsea er erfiðasta starfið í úrvalsdeildinni vegna þess hversu sterkur leikmannahópur okkar er. Ef ég væri í miðlungsliði gæti ég keypt sex leikmenn fyrir 20 milljónir punda. Hér er það ekki svo. Það er mjög erfitt að kaupa leikmenn til Chelsea því við viljum aðeins þá bestu, sem önnur lið vilja ekki láta fara. Þess vegna eru verðin sem við höfum verið að borga fyrir nýju leikmennina alveg fáránleg," segir Mourinho, sem er að sögn breskra fjölmiðla á leið til Mílanó til að sannfæra Andrei Shevchenko um að ganga til liðs við Chelsea.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×