Innlent

Afskipti þrátt fyrir neitun

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, fullyrti í viðtali í Kastljósþætti í síðustu viku að hann hefði engin afskipti haft af ritstjórnum þeirra fjölmiðla sem hann ætti. Í grein um Jón Ásgeir sem birtist í Mannlífi eru hins vegar týnd til tvö dæmi um að hann hafi haft afskipti af ritstjórnum fjölmiðla sinna.   Björn Bjarnason dómsmálaráðherra gerir málið að umtalsefni í pistli á heimasíðu sinni. Þar vitnar hann í Mannlíf, en þar er meðal annars fjallað um afskipti Jóns Ásgeirs af fréttaflutningi á Vísir.is. Í Mannlífsgreininni er vitnað í Sigurð Hólm Gunnarsson fyrrverandi blaðamann á Vísi.is þar sem hann lýsir því hvernig afskiptum Baugsmanna var háttað af frétt um ásakanir Jóns Geralds Sullenberger á hendur Jóni Ásgeiri sem birtist á netmiðlinum, en fréttin var unnin af fréttastofu Stöðvar tvö og birt á netmiðlinum. Í blaðinu eru meðal annars sýnd tölvusamskipti milli blaðamannsins og ritstjóra Vísis.is, sem fullyrti á sínum tíma að Jón Ásgeir hefði haft samband við sig og krafist þess að fréttin yrði fjarlægð af vefsíðunni. Þá er haft eftir Sigurði G. Guðjónssyni, fyrrverandi forstjóra Norðurljósa í Mannlífi, að Jón Ásgeir hefði sent sér tölvupóst haustið 2002, þar sem hann tjáði Sigurði að Baugur myndi ekki auglýsa í miðlum Norðurljósa framar. Gerðist þetta eftir viðtal Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Þórhalls Gunnarsson við Jóhannes Jónsson í Íslandi í býtið, en þáttastjórnendurnir lögðu fram gögn sem áttu að sýna óeðlilega hækkun vöruverðs á leiðinni frá Bandaríkjunum í verslanir Baugs. Gengu Þórhallur og Jóhanna hart fram í viðtali við Jóhannes. Sigurður G. Guðjónsson segir í samtali við Mannlíf að Jón Ásgeir, hafi eftir að Baugur eignaðist stóran hluta í Norðurljósum haft sérstakan áhuga á að koma Jóhönnu Vilhjálmsdóttur úr starfi. Í Kastljósviðtali sem Sigmar Guðmundsson átti hinsvegar við Jón Ásgeir síðastliðinn þriðjudag, sagðist Jón Ásgeir aldrei hafa reynt að hafa áhrif á ritstjórnir fjölmiðla sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×