Innlent

Tungl í ljóni gefur lit

Tólf sinnum á ári þykjast margir sjá breytingar á fólki og dýrum, með fullu tungli. Geðveikir og flogaveikir voru eitt sinn sagðir þjáðir af tunglsýki. Ljósmæður segjast sjá meira líf í kringum fæðingar á fullu tungli og bændur kíkja í útihúsin. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, hefur oft sagt að það viti ekki á gott fyrir lögregluna þegar fullt tungl er, líkt og var nú um helgina, en mikil átök einkenndu menningarnótt. Það var þó á föstudaginn, rétt fyrir klukkan 18 sem fullt tungl var, en ekki á laugardaginn. Gunnlaugur Guðmundsson stjörnuspekingur segir að áhrif fullt tungls gæti í þrjá daga, daginn á undan og á eftir. Stemningin breytist þó þegar fullu tungli er náð. "Það er meiri gleði þegar tunglið fer í fyllinguna, en þegar vaxtarkrafturinn minnkar verður fólk ergilegra. Þá er farið að fjara undan kraftinum." Það ástand á við á laugardagskvöldið þegar komið var fram yfir fullt tungl. Áhrif tungls á líkamann komi til vegna þess að við erum sjötíu prósent vatn, og flóð og fjara eigi við vatnið í líkamanum eins og annað vatn. Gunnlaugur segir að tunglið almennt opna á tilfinningar, fólk verði opnara og meira örvandi og meira fjör sé á skemmtistöðum. "Mér hefur alltaf fundist skemmtilegra, ef ég á annað borð er að fara út, að fara á fullu tungli." Tunglin tólf hafa sín mismunandi einkenni, eftir því sem Gunnlaugur segir. Í þetta sinn var tungl í ljóni og vatnsbera, en í ljóninu er mikið líf. Hann bendir á Menningarnótt og Hinsegin dagar séu haldnir í ljónsmerkinu og þær hátíðir séu mun litríkari en til dæmis 17. júní. "Ef fullt tungl er í nautinu, voginni eða krabbanum, þá er fólk rólegra. Þegar fullt tungl er í steingeit er fólk agaðra."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×