Innlent

Sex hundruð börn á biðlista

Sex hundruð börn eru á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum grunnskóla Reykjavíkurborgar vegna manneklu. Um níutíu starfsmenn á frístundaheimilunum, en starfrækt eru 32 frístundaheimili við jafnmarga grunnskóla í borginni. "Velmegun í þjóðfélaginu og lág laun leiða til þess að erfitt reynist að fá fólk í þessi störf," segir Sigrún Sveinbjörnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Íþrótta- og tómstundaráði. Sigrún kveðst þó þokkalega bjartsýn á að takist að manna störfin en erfitt sé að segja til um hversu langan tíma það taki. "Vonandi tekst það þó að stórum hluta fyrstu tvær vikur skólastarfsins," segir hún. Reykjavíkurborg auglýsti um helgina eftir fólki með reynslu og höfðaði þar til eldra fólks. Sigrún kveðst hafa orðið vör við nokkra svörun við auglýsingunni og vonar að í kjölfarið takist að ráða fleira starfsfólk til frístundaheimilanna. "Það gekk betur að ráða fólk síðastliðið haust en ég held að þetta muni að lokum skila sér," segir Sigríður Rut Hilmarsdóttir, umsjónarmaður frístundaheimilis Melaskóla. Þar eru tæplega fimmtíu börn á biðlista eftir plássi og umsóknir enn að berast. Tólf börn eru á hvern starfsmann og býst Sigríður við að ráða þurfi fimm til sex starfsmenn til viðbótar þeim sem þegar starfa við heimilið. Í Kópavogi hefur reynst erfitt að manna leikskóla, líkt og í Reykjavík, en þar eru um 25 stöðugildi laus að sögn Sesselju Hauksdóttur leikskólafulltrúa. Sextán leikskólar starfa í Kópavogi og þar dvelja daglega yfir 1500 börn. "Ef ekki tekst að ráða í þessi stöðugildi er augljóst að við þurfum að draga úr eða fresta inntöku barna sem áttu að fá inni á leikskólunum nú í haust," segir Sesselja. "Við sjáum ekki fram á að þurfa að grípa til annarra ráðstafana í bili og vonumst til þess að úr leysist á næstu dögum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×