Innlent

Ósamið við Gæslukonur

Ekki hafa enn verið gerðir starfslokasamningar við gæslukonur borgarinnar, en uppsagnir þeirra taka gildi næstu mánaðamót. Þær hafa nú farið fram á sambærileg réttindi og þau sem starfsmönnum Vélamiðstöðvarinnar voru tryggð við sölu hennar frá borginni á dögunum, en missi þeir störf sín vegna hagræðingar eiga þeir rétt á launum í þrjá mánuði umfram það sem kjarasamningar kveða á um. Staða gæslukvennanna er þó ekki sambærleg að sögn Birgis Björns Sigurjónssonar, skrifstofustjóra á starfsmannaskrifstofu Reykjavíkurborgar. "Þarna er fyrst og fremst verið að tryggja starfsmönnum þar fyrirheit um ákveðin kjör ef ekki finnst starf við hæfi." Birgir segir hendur borgarinnar bundnar af ráðningarsamningum, kjarasamningum og samþykktum borgarinnar, en menn hafi skapað sér ákveðið svigrúm til þess að gera vel við gæslukonurnar með því að draga það á langinn að senda uppsagnarbréfið þótt ákvörðun um uppsögn hafi lengi legið fyrir. Því væri hægt að bjóða þeim laun samkvæmt uppsagnarfresti í nokkra mánuði eftir starfslok. Birgir segir þær enn fremur hafa kost á fjöldamörgum störfum innan borgarinnar og nefnir meðal annars leikskóla í því sambandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×