Innlent

Fornleifar á Hólum í Hjaltadal

Gullþræðir, perlur, steinar úr plómum og hvalspæni er meðal þess sem hefur fundist í fornleifauppgreftri á Hólum í Hjaltadal. Uppgreftrinum í ár er lokið en við tekur viðamikil rannsóknarvinna. Fjórða sumar Hólarannsóknar er nú senn á enda og ýmislegt áhugavert hefur komið í ljós í fornleifagreftrinum. Hópur með Ragnheiði Traustadóttur í forsvari, hefur nú verið á þriðja mánuð við uppgröft og fornleifafræðikennslu á svæðinu og segir Ragnheiður árangur sumarsins vera mjög góðan. Hún sagði að þau hafa verið að grafa áfram í prenthðusunum og einnig skálahús sem líklega hefur verið kvennaskáli þar sem mikið hefur verið unnið með vefnað. Þar fundust m.a. gullþræðir og perlur og efnisbútar. Ein tilgátan er sú að þarna hafa konurnar unnið með vefnað og viðgerðir t.d. á biskupaklæðum. Textílinn er ekki hægt að greina fyrr en hann hefur verið sendur til Þjóðminjasafnsins til forvörslu en um 400 textílleifar hafa fundist í skálanum í sumar. Húsakostur Hóla skýrist sífellt betur og byrjað hefur verið að aldursgreina minni sem fundist hafa í Kolkuósi, sem var höfn Hólastóls, en þau eru frá 11. og 12. öld eða frá þeim tíma sem Hólastóll var að byggjast upp. Ragnheiður sagði að í sumar hefði einnig verið kafað og að niðurstöður þeirrar köfunar væru mjög lofandi. Næsta ár á að halda köfun áfram og hún sagði möguleika á því að finna eitthvað sunnan við Elínarhólma. Næsta sumar er síðasta sumar hópsins á þessum slóðum en Ragnheiður segir enn margt þar að finna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×