Innlent

Engir eftirmálar af myndatöku

Ólíklegt er að njósnamyndavél sem eigandi World Class kom fyrir í búningsklefa, dragi einhvern dilk á eftir sér. Persónuvernd hefur úrskurðað að myndatakan hafi verið ólögleg. Eigandi World Class kom fyrir falinni myndavél í búningsklefa, til þess að hafa upp á þjófi sem þar hafði leikið lausum hala um skeið. Þjófurinn fannst og segir í viðtali við DV að hann muni leita sér hjálpar við stelsýki sinni. Sem fyrr segir úrskurðaði persónuvernd að myndatakan hefði verið ólögleg og brotið alvarlegt. Persónuvernd er hinsvegar aðeins umsagnaraðili en leggur ekki fram neinar kærur. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við fréttastofuna að málið væri ekki þess eðlis að lögreglan legði fram kæru. Það virðist því svo sem það væri helst hinn gripni þjófur sem gæti kært í málinu, og ekki á honum að heyra að hann hafi áhuga á því. Sú spurning vaknar hvort ólöglegar myndatökur séu teknar gildar sem gögn í sakamálum. Það mun vera á valdi dómara að ákveða slíkt, í hverju máli fyrir sig. Það er kallað frjálst mat dómara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×