Innlent

Hefur engin áhrif á mig

"Fuglaflensan hefur engin áhrif á mig og líf mitt. Ég borða bara svínakjöt, nautakjöt og salat í staðinn fyrir kjúkling," segir Steingrímur Ólafsson iðnrekstrarfræðingur sem er við vinnu í Síberíu. Steingrímur sagði í Morgunútvarpi Talstöðvarinnar í gærmorgun að almenningur í Síberíu hefði varann á en menn væru ekki hræddir. "Maður sér ekki að fólk sé neitt skelkað yfir þessu," sagði hann. "Annars er kerfið hérna eins vel í stakk búið til að takast á við svona vandamál og hægt er. Eitt af þremur bestu sjúkrahúsum landsins er staðsett hér og byrjað var að undirbúa aðgerðir áður en smit kom upp vegna nálægðar við þau lönd þar sem veikinnar hefur orðið vart." Íbúar í Síberíu borða mikið kjúklingakjöt en Steingrímur segir að stórlega hafi dregið úr neyslu á því frá því fuglaflensan greindist í Síberíu í júlí. Á þeim veitingastöðum sem hann sækir er ekki lengur boðið upp á kjúklingakjöt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×