Innlent

Íhuga málaferli gegn Persónuvernd

Jón Hjartarson, skólameistari Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra á Sauðarkróki, segir skólann íhuga að fara í mál við Persónuvernd vegna úrskurðar um að fjöldi eftirlitsmyndavéla á göngum heimavistar skólans brjóti gegn meðalhófsreglu. Jón segir Persónuvernd hafa hvatt sig til að höfða mál til að hrinda úrskurðinum. "Það stóð aldrei til að óhlýðnast úrskurði Persónuvernd," segir Jón. Hann segir ekki ljóst hvort leitað verður til dómstóla eða umboðsmanns Alþingis. Fyrst verði rætt við menntamálaráðuneyti. Í heimavist skólans eru sextán myndavélar notaðar til að vakta tíu ganga, auk véla við aðalinnganga, en á heimavistinni búa um hundrað nemendur. Myndavélarnar á göngunum verða teknar niður fyrir 1. september. Jón segir að úrskurðurinn hafi valdið sér verulegum vonbrigðum. "Það er þunnur þrettándinn ef talið er að heimurinn batni við að þessar vélar verði teknar niður." Hann telur skólann ekki brjóta gegn meðalhófsreglu með því að hafa eina myndavél við hvorn enda hvers gangs og einkalíf nemenda sé tryggt inn á herbergjum þeirra. "Herbergin eru afdrep út af fyrir sig, þar sem nemendur njóta sinnar persónuverndar. Með þessum myndavélum erum við að verja hagsmuni nemenda, foreldra og skólans."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×