Innlent

Öryggismyndavélar-falskt öryggi

Forstjóri Persónuverndar segir vöktunaræði hafa gripið um sig, þar sem allan vanda eigi að leysa með öryggismyndavélum. Hún óttast að fólk upplifi falskt öryggi á kostnað friðhelgi einkalífsins. Ætli það sem gerði frægt atriði í myndinni Modern Times með Charlie Chaplin fyndið fyrir nokkrum áratugum hafi ekki verið hversu fjarstæðukennt það þótti að yfirmaðurinn gæti fylgst með starfsmönnum sínum á þennan máta. Ýmislegt hefur þó breyst í millitíðinni. Sagt er að Bandaríkjamenn séu festir á filmu 70 prósent af vökutíma þeirra og hlutfallið í Bretlandi er víst enn hærra. Leiða má að því líkum að Íslendingar séu þar engir eftirbátar. Öryggismyndavélar eru á heimilum, í skólum, á leikvöllum, í verslunum og verslunarmiðstöðvum, við akbrautir, á skemmtistöðum, í bönkum, í miðborginni, á vinnustöðum og nú síðast greip eigandi líkamsræktarstöðvarinnar World Class til þess ráðs að koma fyrir falinni myndavél í búningsklefa til að koma upp um þjófnaðarmál. Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar líkir þessu við vöktunaræði og segir ástæðu þess hvað andmælaraddirnar eru lágværar þá að fólk telur að með myndavélarnar veiti því öryggi. Hún segir að það sem þau séu að benda á sé að vöktunin er tvíbent og í staðinn fyrir falskt öryggi er einnig hægt að upplifa hættulegt óöryggi sem felst í því að fólk glatar sínu einkalífi á einhvern hátt. Meginreglan er sú að fólk má setja upp myndavélar í þeim tilgangi að tryggja öryggi sitt og eignir, en skýrar merkingar um að svæðið sé vaktað þurfa að fylgja. Lögreglan er eini aðilinn sem getur vaktað með leynd og þarf dómsúrkurð til -og vinnuveitendur sem vilja vakta starfsfólk sitt með myndavélum þurfa leyfi Persónuverndar til slíks. Sigrún segir að Persónuvernd fái í sínauknum mæli erindi frá starfsmönnum þar sem þeim finnst of langt gengið í vöktun, ekki bara með myndavélum heldur einnig símtölum og ferðir þeirra um internetið sem og húsakynni fyrirtækisins. Það er því ljóst að vöktun á íslenskum vinnustöðum hefur teygt sig lengra en hugmyndaflug kvikmyndagerðarmanna á síðustu öld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×