Innlent

Getur borist í hvaða fugl sem er

Fuglaflensan getur borist í hvaða fugl sem er á Íslandi en þrátt fyrir það ættu veiðimenn ekki að hræðast að verka veidda fugla því litlar líkur eru á að þeir séu smitaðir að sögn yfirdýralæknis. Landlæknisembættið, embætti yfirdýralæknis og matvælasvið Umhverfisstofnunar eru meðal embætta sem koma að málinu í dag. Fuglaflensan hefur dreifst víða um heim á undanförnum vikum og hennar hefur orðið vart meðal annars í Síberíu og Rússlandi. Flensan getur borist til Íslands með sýktum farfuglum en sú veira sem um ræðir í dag berst ekki á milli manna. Guðrún Sigmundsdóttir hjá landlæknisembættinu segir stöðugt verið að vinna að þróun bóluefnis en ekki hafi enn verið farið út í neina stórframleiðslu þar sem ekki er vitað hvernig veiran kemur til með að líta út sem veldur heimsfaraldrinum. Hún segir vandamálin vera þau að erfitt er vita hvernig veiran kemur til með að líta út ef hún fer að smitast manna á milli. Hún sagði að hægt væri að búa til mikið af bóluefni í dag sem ekki kæmi til með að virka þar sem ekki er vitað hvernig veira lítur út. Guðrún segir í raun ekki hægt að framleiða bóluefni fyrr en veiran er farin að smitast á milli manna, en ekki frá fuglum í menn. Ferlið frá rannsóknum á veirunni þar til bóluefni er komið til fólksins taki svo alltaf þónokkra mánuði. Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir segir í raun hvaða fugl sem er á Íslandi geta sýkst af fuglaflensunni en reynslan í öðrum löndum sýni að sjúkdómurinn herji helst á andfugla eins og endur og gæsir. Því má spurja sig hvort veiðimenn hér á landi geti sýkst á því að verka sýktan fugl. Halldór segir að metið á líkum sé ekki rétt að valda fólki óþarfa áhyggjum. Veiðimenn ættu því ekki að hræðast að verka fugla því litlar líkur séu á að þeir séu smitaðir. Halldór vill þó benda fólki á að fara varlega en verið sé að vinna í þessum málum hjá ýmsum embættum. Í þessari viku mun nefnd skipuð fólki frá landlæknisembættinu, embætti yfirdýralæknis og matvælasviði Umhverfisstofnunar hittast til að ræða um þessi mál og framhaldið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×