Innlent

Aðfinnslur um kynþáttamisrétti

Nefnd Sameinuðu Þjóðanna um afnám kynþáttamiséttis gerir athugasemd við það að íslensk stjórnvöld skáru niður framlög til Mannréttindaskrifstofunnar með ákvörðunum stjórnvalda fyrr á þessu ári. Í nýrri skýrslu nefndarinnar er farið fram á að íslensk stjórnvöld veiti frjálsum félagasamtökum, sem vinna gegn kynþáttamisrétti, stuðning til að tryggja sjálfstæði þeirra og fjárhag. Þess er getið að Ísland hafi ekki tekið upp í landslög ákvæði sáttmála um afnám kynþáttamisréttis og eru stjórnvöld hvött til þess að ráða bót á því. Fram kemur að nefndinni hafa borist skýrslur um að flóttamenn og hælisleitendur hafi ekki ávallt fengið fullnægjandi afgreiðslu mála þótt íslensk lögreglu- eða landamærayfirvöld hafi fengið leiðsögn um alþjóðleg mannréttindi og lög um flóttamenn. Nefndin telur æskilegt að íslensk stjórnvöld endurskoði ákvæði um 24 ára aldursmark til dvalarleyfis þegar giftingaraldur er 18 ár. Hún mælir með að skilyrði svonefndra gervihjónabanda verði endurskoðuð. Fjallað er um skammtíma atvinnuleyfi í skýrslunni og talin hætta á brotum gegn réttindum erlendra farandverkamanna með því að binda atvinnuleyfi við atvinnurekendur fremur en launamennina sjálfa. Sérstök hætta er talin vera á brotum sem lúta að aðstæðum á vinnustað og starfskröfum. Vakin er athygli á því að ekki er starfrækt á Íslandi mannréttindastofnun og eru stjórnvöld hvött til þess að koma á fót slíkri stofnun sem starfi í anda Parísarsáttmálans. Nefnd Sameinuðu þjóðanna fagnar því að Íslendingar hafi undanfarið staðfest fjölda samninga og sáttmála, meðal annars um réttindi barna. Þá hafi réttur fólks af erlendum uppruna verið treystur með lögum. Slíkar réttarbætur hafi meðal annars orðið til þess að um eitt þúsund innflytjendur gátu nýtt sér kosningaarétt í sveitarstjórnarkosningunum árið 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×