Erlent

Öfgamönnum vísað strax úr landi

Charles Clarke, innanríkisráðherra Bretlands, hefur birt nýjar reglur um brottvísun einstaklinga sem ekki eru breskir ríkisborgarar og grunaðir eru um að hvetja til hryðjuverka. Þeir sem eru taldir ógna þjóðaröryggi með því að styðja hryðjuverkastarfsemi, vegsama hana eða upphefja með einhverju móti, geta nú átt von á því að verða sendir tafarlaust úr landi. Mannréttindasamtök eru ekki hrifin af nýju reglunum og óttast að þær leiði til þess að bresk yfirvöld sendi menn til landa þar sem pyntingar eru stundaðar. Clarke segir á móti að leikreglurnar hafi einfaldlega breyst eftir sprengjuárásirnar í Lundúnum 7. júlí þar sem 52 létu lífið. Gert verði samkomulag við ríkin sem um ræðir um að ekki verði farið illa með neinn sem sendur verður frá Bretlandi, en það telja gagnrýnendur lítils virði. Betra væri að rétta yfir viðkomandi heima í Bretlandi en hafa það á samviskunni að hafa ef til vill sent fólk beint inn í pyntingaklefa í heimalandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×