Erlent

Mannréttindasamtök lítt hrifin

Útlendingar sem eru taldir ógna þjóðaröryggi Breta með því að hvetja til hryðjuverka, vegsama þau eða upphefja með einhverju móti geta nú átt von á því að verða sendir tafarlaust úr landi, samkvæmt nýjum reglum sem Charles Clarke, innanríkisráðherra Bretlands, birti í dag. Mannréttindasamtök eru ekki hrifin. Clarke sagði leikreglurnar í bresku þjóðfélagi einfaldlega hafa breyst eftir sprengjuárásirnar í Lundúnum 7. júlí þar sem 52 létu lífið. Hryðjuverkaógnina yrði að taka alvarlega og stjórnvöld yrðu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr henni. Reglunum virðist einkum beint að íslömskum kennimönnum sem predika í moskum í Bretlandi, en allt það sem er birt opinberlega, hvort sem er á vefsíðum eða í dreifibréfum eða sagt í ræðum og predikunum, má nota gegn viðkomandi. Búinn verður til gagnagrunnur þar sem verður safnað upplýsingum um íslamska öfgamenn sem taldir eru tengjast hryðjuverkum á einhvern hátt eða eru grunaðir um að hafa hvatt til þeirra. Mannréttindasamtök eru ekki hrifin af nýju reglunum og óttast að þær leiði til þess að bresk yfirvöld sendi menn til landa þar sem pyntingar eru stundaðar. Þrátt fyrir að bresk stjórnvöld vinni nú að því að ná samkomulagi við arabaríki um að ekki verði farið illa með neinn sem vísað verður frá Bretlandi á þessum forsendum telja gagnrýnendur það lítils virði. Betra væri að rétta yfir viðkomandi heima í Bretlandi en hafa það á samviskunni að hafa ef til vill sent fólk beint inn í pyntingaklefa í heimalandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×