Erlent

Jarðarbúar níu milljarðar 2050

Indverjar verða orðnir fleiri en Kínverjar árið 2050, samkvæmt nýjustu skýrslu Mannfjölgunarráðs, sem hefur rannsakað mannfjölgun í 75 ár. Nær öll fjölgun jarðarbúa næstu áratugina verður í þróunarríkjunum, en spáð er að mannkynið verði orðið níu milljarðar eftir 45 ár. The Population Research Board eða Mannfjölgunarráð er óháð stofnun í Bandaríkjunum sem hefur rannsakað og spáð fyrir um mannfjölgun síðan árið 1930. Ráðið kynnti nýjustu skýrslu sína í Washington í gær. Þar segir að öruggt sé að jarðarbúum muni fjölga næstu áratugina, en nær öll sú fjölgun verði í þróunarríkjunum þar sem meðalfjöldi fæddra barna á konu í flestum vestrænum ríkjum er kominn niður fyrir tvö börn. Í þróunarríkjunum er meðaltalið enn þrjú til sjö börn. Kínverjar eru enn fjölmennasta þjóð heims með um 1,3 milljarða íbúa en Indverjar verða orðnir fleiri árið 2050, um 1,6 milljarðar. Stefna kínverskra stjórnvalda að hvetja hjón til að eignast ekki fleiri en eitt barn er farin að skila sér í hægari fólksfjölgun en að sama skapi bíður stjórnvalda það verkefni að halda uppi stórum kynslóðum af eldra fóki með færri hendur á vinnumarkaði. Í skýrslunni kemur einnig fram að meira en helmingur mannkyns lifir á innan við 130 krónum á dag og þriðjungur þeirra sem búa í dreifbýli hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni. Ungbarnadauði hefur minnkað á Vesturlöndum og í mörgum þróunarríkjum einnig en í Bandaríkjunum hefur hann aukist og er mun meiri en í Vestur-Evrópu. Því má bæta við að meðalfjöldi fæddra barna á kona á Íslandi er rétt innan við tvö börn, en það er þó næstmesti fjöldinn í Evrópu, einungis Tyrkir eignast fleiri börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×