Innlent

Segir símtal ekki tengjast morði

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir símtal til neyðarlínu tæpum klukkutíma fyrir morðið á Hverfisgötu á laugardagsmorgunn ekki tengjast morðinu eða þeim sem þar komu við sögu á nokkurn hátt. Í DV í gær var viðtal við mann sem sagðist hafa orðið vitni að grunsamlegu athæfi á Hverfisgötunni rétt áður en morðið var framið. Í kjölfar fréttarinnar kannaði lögreglan málið. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að fyrir liggi upptaka af símtali til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu frá því á laugardagsmorgun, en það hafi borist tæpum klukkutíma áður en morðið hafi verið framið. Það hafi verið aðili sem hafi tilkynnt um ökumann sem hugsanlega hafi verið undir áhrifum fíkniefna eða áfengis á leið austur Hverfisgötu. Þetta tengist ekkert atburðunum sem hafi átt sér stað í húsinu við Hverfisgötu. Spurður hvort ekki sé möguleiki á því að um annað símtal hafi verið að ræða segir Geir Jón það ekki geta verið frá þeim manni sem tilkynnt hafi fréttina í DV í gær. Í framhaldinu fékk lögreglan upptöku af símtalinu frá neyðarlínunni. Geir Jón segir að málið hafi verið borið þannig fram að lögreglan hafi viljað svara fyrir það þannig að það lægi alveg ljóst fyrir að símtalið tengdist ekki morðmálinu. Það hafi litið svo út að lögregla hefði ekki sinnt útkalli á stað þar sem hefði mátt koma í veg fyrir atburð en það eigi ekki við rök að styðjast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×