Innlent

Ekki kunnugt um frekari uppsagnir

Um tvö hundruð manns hefur verið sagt upp stöfum hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli á síðustu tveimur árum. Þrettán starfsmönnum flugþjónustudeildar verður sagt upp um mánaðamótin og taka starfsmenn flughersins við þeirra störfum. Upplýsingafulltrúi varnarliðsins segir að sér sé ekki kunnugt um frekari uppsagnir hjá varnarliðinu. Umfang varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur minnkað verulega síðustu ár. Í október árið 2003 var 90 starfsmönnum varnarliðsins sagt upp störfum og hefur frá þeim tíma rúmlega 100 verið sagt upp. Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi varnarliðsins, segir fyrirhugaðar uppsagnir á fólki í flugþjónustu við herflugvélar, en sú vinna fari í hendur verktaka. Þess sé vænst að samningur við hann verði gerður fljótlega. Friðþór segir að þetta hafi staðið fyrir dyrum í á annað ár en það sé bandaríski flugherinn sem sjái stöðinni fyrir ákveðinni flugþjónustu, þ.e. farþegaflugi og loftflutningum. Aðspurður hvort fleiri uppsagnir séu fyrirhugaðar hjá varnarliðinu segir Friðþór að honum sé ekki kunnugt um það og engin slík ákvörðun liggi fyrir. Í sumar var greint frá því að verið væri að skoða hvort flugherinn myndi taka við starfsemi stöðvarinnar, en varnarstöðin hefur verið flotastöð frá upphafi. Aðspurður hvenær von sé á niðurstöðu í því máli segir Friðþór að hann þori ekki að segja til um það. Verið sé að kanna hvernig þessi skipti færu fram ef af þeim yrði og ekki sé að vænta frétta af því fyrr en niðurstöður þeirrar könnunar liggi fyrir þannig að menn geti tekið endanlega ákvörðun um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×