Innlent

Fé í aðstoð fremur en ferðalög

Laufey Helgadóttir er komin á níræðisaldur og finnst peningunum sínum betur eytt í hjálparstarf en ferðalög. Á síðustu árum hefur hún gefið háar fjárhæðir til ýmissa málefna og hún hvetur fólk til að gera slíkt hið sama. Laufey Helgadóttir er Þingeyingur úr Mývatnssveit en hún hefur búið í Borgarnesi síðustu 35 ár. Laufey gaf á dögunum ein milljón króna til hjálparstarfsins í Níger en hún hefur áður gefið fé til hjálparstarfs Rauða krossins, meðal annars eina milljón til stuðnings fórnarlömbum fljóðbylgjunnar í Asíu og hálfa milljón í söfnunina Göngum til góðs í fyrra. Þá hefur hún einnig gefið til ýmissa hjálparstofnana, björgunarsveita og dvalarheimilisins í Borgarnesi. Laufey segist aðspurð ekki vita hversu mikið hún hafi gefið alls en hún verji fénu þar sem hún telji að þess sé mest þörf. Laufey segist vera orðin of gömul fyrir utanlandsferðir og að ellilífeyrinn dugi henni. Það sé þó svolítið misjafnt þar sem lækniskostnaður hennar sé dálítill, en hún sé hjartasjúklingur. En þetta dugi og þess vegna hafi hún getað gefið svolítið. Laufey segir líklegt að hún haldi áfram að gefa peninga á meðan þeir endast. Hún segir að ekki sé enn búið að borga upp íbúðina sem hún hafi selt og á meðan geti hún borgað. Hún ætli að eiga vel fyrir útför sinni en meira þurfi hún ekki að skilja eftir af peningum. Aðspurð hvort fleiri ættu að fylgja fordæmi hennar segir Laufey að margir gætu það. Þeir sem hafi tvær til þrjár milljónir á mánuði gætu t.d. lagt dálítið af mörkum án þess að það skaðaði þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×