Innlent

Milljarðafjárfesting í Glaðheimum

Fjárfestarnir sem vilja kaupa hesthús í Glaðheimum hafa stofnað eignarhaldsfélag til að halda utan um eignirnar. "Við lítum á þetta sem langtímafjárfestingu," segir Guðbjartur Ingibergsson. Hann, ásamt Kristjáni Ríkharðssyni, stendur að uppkaupum hesthúsanna. Hann segir jafnframt fjársterka aðila vera á bak við þá og býst við uppkaupum fyrir allt að einn og hálfan milljarð. Fjárfestunum gengur það til að hafa forgang að lóðunum þegar hestamenn fari annað. Hestamannafélagið Gustur og bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa hins vegar þvertekið fyrir það á opinberum vettvangi undanfarna daga að félagið flytji sig um set, og er hætt við að fjárfestarnir fái þá lítið fyrir sinn snúð. Í rauninni leggja þeir féð undir í trausti þess að það breytist. "Það gefur auga leið að við hefðum aldrei farið út í þetta ef þær væntingar væru ekki til staðar," segir Guðbjartur. Þeir hyggjast ekki draga í land. "Við bjuggumst alltaf við andstöðu en áttum kannski ekki von á því að farið yrði með þetta í fjölmiðla." Guðbjartur telur fjöldamarga Kópavogsbúa andsnúna því að hafa Glaðheima í miðri byggð, og þrátt fyrir yfirlýsingar síðustu daga vonast hann enn til þess að afstaða Kópavogsbæjar og hestamannafélagsins muni breytast á næstu árum. Hann bendir á að margir hafi áhuga á að komast að á svæðinu. Guðbjartur þvertekur fyrir það að um aðför að félaginu sé að ræða. "Það var aldrei í okkar huga ætlunin að ganga þannig frá þessu að Gustur bæri skarðan hlut frá borði." Hann segir þá hafa boðist til að kaupa reiðhöll Gusts og reiðvelli í Glaðheimum af stjórn Gusts, og kveður þá tilbúna að aðstoða félagið við að finna nýjan framtíðarstað og koma þar upp aðstöðu. "Ef það er vilji fyrir hendi eru til næg svæði." Að sögn hans eru 63 hesthús á svæðinu sem skiptast í 101 eignarhluta. Hann telur fjárfestana hafa tryggt sér 36 eignarhlutanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×