Erlent

Schröder hafi ekki brotið lög

Æðsti dómstóll Þýskalands hefur úrskurðað að Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og flokkur hans hafi ekki brotið stjórnarskrána með því að fella eigin stjórn með vantrauststillögu á þingi. Þingkosningar verða því 18. september eins og ráð var fyrir gert. Tveir þingmenn, annar úr flokki Schröders og hinn frá Græningjaflokknum, samstarfsflokki hans í ríkisstjórninn,i lögðu fram kvörtun til dómstólsins og töldu ríkisstjórn ekki leyfilegt samkvæmt stjórnarskrá að fella eigin stjórn með þessum hætti. Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari, lék svipaðan leik árið 1983 og komst dómstóllinn þá að sömu niðurstöðu, að þetta stæðist stjórnarskrána. Eftir seinni heimsstyrjöldina var það sett inn í stjórnarskrá að þingið gæti ekki rofið sig sjálft, forsetinn einn hefði vald til þess. Þess vegna hafa kanslararnir beitt þessari aðferð til að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Ástæða þess að Schröder vildi nýjar kosningar var sú að hann vildi fá endurnýjað umboð kjósenda áður en ríkisstjórn hans færi af stað með róttækar og umdeildar efnahagsaðgerðir til að reyna að hleypa lífi í heldur staðnað efnahagslíf landsins. Sósíaldemókrataflokkur Schröders nýtur þó mun minna fylgis en kristilegir demókratar, samkvæmt skoðanakönnunum. Nokkuð hefur dregið saman með flokkunum undanfarið en stjórnmálaskýrendur segja Schröder þurfa á kraftaverki að halda á næstu fjórum vikum, ef flokkur hans á ekki að tapa kosningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×