Innlent

Stöðumælarnir burt á Akureyri

Frá og með morgundeginum verður frítt að leggja bílum á Akureyri. Bæjaryfirvöld þar hafa ákveðið að treysta bæjarbúum til að virða tímamörk og stilla klukku í stað þess að borga í mæla. Þá verður skorin upp herör gegn ófötluðum sem leggja í stæði fyrir fatlaða. Klukkukerfið verður tekið formlega í notkun á Akureyri á morgun en þá leggjast stöðumælagjöldin niður. Þá gildir að vera samviskusamur því pappírsklukkum hefur verið dreift í hús í bænum sem ökumenn eiga að stilla upp í glugga bílsins þegar bílnum er lagt. Guðmundur Jóhannsson, formaður umhverfisráðs Akureyrar, segir kerfið einfaldlega þannig að fólk eigi að stilla klukkuna á réttan tíma þegar það komi en ef stöðumælavörður sjái að klukkan hafi verið stillt fram í tímann fái viðkomandi sekt. Þeir sem vilja geyma bílinn allan daginn þurfa að leigja stæði sem kostar 18 þúsund krónur á ári, eða um 70 krónur á dag. Aðspurður hvort bærinn verði fyrir tekjumissi vegna breytinganna segir Guðmundur hann einhvern en það sé ekki svo mikið að það skipti sveitarfélagið máli. Þá hefur einnig verið ákeðið að auka eftirlit með sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á einkalóðum bæjarins til að koma í veg fyrir að aðrir en fatlaðir leggi þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×