Innlent

Engar upplýsingar um ofbeldisstaði

"Þessar upplýsingar eru trúnaðarmál enda eigum við sjálfir eftir að fara á stúfana og ræða við viðkomandi veitingamann vegna þessa," segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík. Í nýlegri úttekt sem unnin var fyrir embættið um ofbeldisbrot í miðbæ Reykjavíkur kemur fram að einn skemmtistaður sker sig allnokkuð úr þegar kemur að fjölda mála sem þaðan berast vegna ofbeldis við eða inni á viðkomandi stað. Voru 20 skráð tilfelli ofbeldisverka þar árið 2004 eða tæplega helmingi fleiri en á næstu stöðum á eftir en lögregla vill þó ekki upplýsa nafn viðkomandi staðar. Geir Jón segir lögreglu hafa veitt þessu eftirtekt og hluti af ástæðu þess að umrædd úttekt var gerð var til að embættið fengi betri yfirsýn yfir slíkt. "Við höfum hugsað okkur að nota þessar upplýsingar til að ná betri samvinnu við dyraverði og veitingamenn á þeim stöðum þar sem ofbeldi virðist vera algengara en annars staðar. Við værum líka að gera viðkomandi mikinn grikk með því að birta nafn staðarins og gerum það ekki að svo stöddu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×