Innlent

Yfir 2.000 ótryggðir bílar

Ríflega 2.200 bifreiðar voru í gær á skrá Umferðarstofu yfir óvátryggða bíla, þar af voru um 800 sem verið höfðu á listanum frá því fyrir áramót. Gera má því ráð fyrir að yfir þriðjungur þeirra sem á annað borð skulda tryggingar trassi það mánuðum saman að borga. Kristján V. Rúriksson, verkefnisstjóri hugbúnaðarþróunar hjá Umferðarstofu, segir mikla hreyfingu á listanum, enda séu stöðugt einhverjir að greiða upp tryggingar sínar og aðrir bílar að bætast á listann. Hann sagði skrána ná yfir bíla sem eru í umferð og á götunni. "Þeir sem reyna að sleppa við að borga tryggingarnar beita náttúrlega ýmsum leiðum, leggja til dæmis ekki við heimili sitt, heldur í næstu götu og svo framvegis," segir Kristján en vill ekki skjóta á hversu margir bifreiðaeigendur á listanum séu svo kræfir. Hann segir lögregluna fá vikulega lista yfir ótryggða bíla og að í Excel sé hægt að raða þeim upp þannig að sjáist hverjir hafi trassað lengst að borga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×