Innlent

Fangelsi fyrir stuld í klefa

Fyrrum starfsmaður World Class líkamsræktarstöðvarinnar í Laugardal var í gær dæmdur í tveggja mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, fyrir að stela frá gestum stöðvarinnar í búningsklefa. Dómurinn var skilorðsbundinn í tvö ár. Málið var tekið til þingfestingar í gær, en þegar ljóst var að játning mannsins lá fyrir, var ákveðið að ljúka málinu og kveða upp dóm. Á tímabilinu frá janúar og fram í maí á þessu ári tók maðurinn úr ólæstum skápum í líkamsræktarstöðinni alls 102.000 krónur. Minnst hafði maðurinn upp úr krafsinu 2.000 krónur, í tvö skipti, en í aprílbyrjun stal hann í eitt skipti 34.000 krónum. Málið vakti nokkra athygli eftir að upp komst þar sem settar voru upp eftirlitsmyndavélar í búningsklefanum án vitundar gesta. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu fyrir skemmstu að uppsetning vélanna hafi verið óheimil. Maðurinn bar við stelsýki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×