Innlent

Kjarasamningar séu í uppnámi

Kjarasamningar eru í uppnámi að mati ASÍ vegna gríðarlegrar verðbólgu og hækkunar á vísitölu neysluverðs. Verðbólgan hefur ekki verið meiri í 40 mánuði. Verðbólgan mælist nú 4,8 prósent. Samkvæmt Hagstofunni hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,9 prósenmt undanfarna þrjá mánuði sem jafngildir 7,6 prósenta verðbólgu á ári. Að mati greiningardeildar Íslandsbanka þýðir þetta að verðbólgumörk Seðlabankans hafi verið rofin með áberandi hætti en meðal þess sem skýrir þessa þróun eru hækkun á húsnæðisverði og hækkun á olíuverði á erlendum mörkuðum. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir verðbólguna meiri en það sem skilgreina megi sem stöðugt verðlag og umfram markmið Seðlabankans um að halda verðbólgunni í 2,5 prósentum. Lögum samkvæmt greinir Seðlabankinn ríkisstjórninni á næstunni frá ástæðum þess að verðbólgan hafi rofið efri þolmörk, en samkvæmt markmiðum bankans eru þau fjögur prósent. Íslandsbanki spáir því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 0,5 prósentustig í lok mánaðarins til að grípa enn frekar í taumana. Alþýðusamband Íslands segir þróunina mjög slæm tíðindi og áhyggjuefni því kaupmáttur launatekna hafi rýrnað hjá mörgum launþegum. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir verðbólguna setja forsendur kjarasamninga í uppnám. Það sé ljóst að óstöðugleikinn sé mikill í þjóðfélaginu. Þegar gengið hafi verið til kjarasamninga í fyrra hafi ASÍ vonast eftir því að verið væri að leggja grunn að stöðugleika en það hafi ekki gengið eftir. Ólafur Darri segir að staðan nú geri starf endurskoðunarnefndar um forsendur kjarasamninga vandasamara en ella og að brýnt sé að bregðast við og leita leiða til úrbóta. Ef nefndin komi sér ekki saman um viðbrögð geti einstök félög sagt upp kjarasamningum frá og með næstu áramótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×