Innlent

Líkið af Friðriki Ásgeiri fundið

Líkið af Friðriki Ásgeiri Hermannssyni fannst seinni partinn í dag. Rétt fyrir klukkan sex náðu kafarar líkinu upp og var komið með hann að landi nú rétt fyrir fréttir. Upp úr klukkan fjögur fannst líkið af Friðriki Ásgeiri sem leitað hefur verið að frá því aðfaranótt laugardagsins fyrir viku þegar báturinn Harpa fórst. Líkið fannst með neðansjávaryndavél í björgunarskipinu Einari Sigurjónssyni á sama stað og flak bátsins fannst. Kafarar frá Landhelgisgæslunni og Landsbjörgu náðu líki Friðriks upp og var hann fluttur að landi með björgunarskipinu Ásgrími Björnssyni þar sem ættingjar Friðriks tóku á móti skipinu. Stórtæk leit að Friðriki Ásgeiri hófst klukkan átta í morgun. Gengnar voru fjörur frá Gróttu fram yfir Hofsvík á Kjalarnesi. Kafarar frá björgunarsveitunum, slökkviliði höfuðborgarsvæðisinns og Landhelgisgæsluni köfuðu á Viðeyjarsundi og einnig var notast við sónarleitartæki og neðansjávarmyndavél. Tvö björgunarskip og níu bátar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg auk tveggja báta frá slökkivliði og lögreglu ásamt varðskipi tóku þátt í leitinni. Samtals tóku um 150 björgunarmenn þátt í leitinni en þar af voru um 30 kafarar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×