Uppeldisfélög knattspyrnumannsins Grétars Rafn Steinssonar munu skipta á milli sín fimm prósenta hlut af þeim tæplega fimmtíu milljónum sem svissneska félagið Young Boys fékk fyrir hann þegar hann gekk til liðs við hollenska félagið AZ Alkmaar. Grétar er Siglfirðingur og lék með yngri flokkum KS fram að sextán ára aldri þegar hann samdi við ÍA. Samstöðubætur greiðast til félaga sem Grétar hefur spilað með frá því að hann var tólf ára gamall og þar til hann hefur náð tuttugu og þriggja ára aldri.Eiríkur Guðmundsson, sem situr í meistaraflokksráði hjá ÍA, segir alltaf ánægjulegt þegar leikmenn sem hafa spilað með yngri flokkum félaga ná langt. "Það er ánægjulegt þegar peningar skila sér til okkar með þessum hætti því það er eins konar viðurkenning á því starfi sem við erum að vinna. Það er nú ekki komið í ljós hversu miklir peningar þetta eru en það skiptir ekki öllu mál hversu há upphæðin er. Þessir peningar koma að góðum notum." Þórir Hákonarson, formaður KS, tók í sama streng og gladdist yfir því að KS fengi að njóta góðs af því að Grétar væri að standa sig vel. "Það kemur mér ekkert á óvart að Grétar skuli vera að ná langt í fótboltanum. Hann hefur rétta hugarfarið og auðvitað líka mikla hæfileika og það er ánægjuefni að KS skuli njóta góðs af góðu gengi Grétars."