Innlent

Alþingi Íslendinga sett

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, talaði meðal annars um lýðræði og þær breytingar sem orðið hafa á fréttaflutningi í ræðu sinni við setningu 132. löggjafarþings Íslendinga í gær. "Lýðræðið er í vaxandi mæli vettvangur fólks með ólíka reynslu, mismunandi upplýsingar, fréttir sem berast úr mörgum áttum," sagði forsetinn í ræðu sinni. Hann benti á að áður fyrr hefðu allir fengið sömu fréttir, útvarpið hefði aðeins verið með eina rás og flokkakerfið hefði stjórnað fréttum dagblaðanna. Nú réði fjölbreytileikinn hins vegar ríkjum og fjölmargar stöðvar og ólíkir miðlar berðust um hylli fólksins. Forsetinn taldi að þessi þróun gæti orðið lýðræðinu til aukins þroska. Setning Alþingis hófst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni þar sem séra Valgeir Ástráðsson predikaði og þjónaði fyrir altari, ásamt Karli Sigurbjörnsyni, biskupi Íslands. Að guðsþjónustu lokinni gengu forsetinn, biskup, ráðherrar, þingmenn og aðrir gestir yfir í Alþingishúsið þar sem forsetinn setti þingið. Að lokinni setningu og ræðu forseta tók Halldór Ásgrímsson starfsaldursforseti við fundarstjórn og stjórnaði kjöri nýs forseta Alþingis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×