Beckham óhress með rauða spjaldið
David Beckham var ekki sáttur við að vera rekinn af leikvelli í leiknum gegn Austurríki nú áðan og sagði bæði gulu spjöldin sem hann fékk hafa verið mjög strangir dómar. Sven-Göran Eriksson tók í sama streng, en var sáttur við sigurinn. "Fyrra spjaldið sem ég fékk var frekar tæpt, en það síðara var fáránlega strangur dómur og allir sem ég hef talað við eru sammála því. Ég botna bara ekkert í þessu, mér þótti ég alls ekki verðskulda að vera rekinn af velli," sagði Beckham. Sven-Göran Eriksson var sáttur við að næla í öll þrjú stigin í leiknum eftir að hafa verið manni færri í hálfa klukkustund. "Ég hefði sætt mig við að vinna 1-0 fyrir leikinn. Það sem skiptir mestu máli í þessum leik er að við fengum öll þrjú stigin, það er það sem telur á þessu stigi í keppninni. Mér þótti rauða spjaldið sem Beckham fékk nokkuð strangur dómur, í það minnsta þaðan sem ég sá það, ég gat ekki séð að hann snerti manninn," sagði Eriksson.