Sven-Göran bjartsýnn
Sven-Göran Eriksson landsliðsþjálfari Englands segir að liðið geti vel orðið heimsmeistari í Þýskalandi ef það verður heppið varðandi meiðsli lykilmanna. Enska landsliðið tryggði sér farseðilinn til Þýskalands um helgina eftir að Holland bar sigurorð af Tékklandi. "Við erum með rosalega sterkt lið og ég er nánast sannfærður um að keppnin verði mjög góð fyrir okkur. Við erum eitt af fjórum til fimm liðum sem geta sigrað mótið á næsta ári og getum vel gert það ef við missum ekki lykilmenn í meiðsli," sagði Eriksson. England hefur ekki verið að spila neitt mjög sannfærandi í undankeppninni en á laugardaginn vann liðið nauman 1-0 sigur á Austurríki. "Við unnum vel saman sem lið, vörðumst vel og áttum nokkrar mjög góðar sóknir. Ég veit það vel að við getum spilað betri fótbolta. Markmiðið var að komast í lokakeppnina og nú hefur það markmið náðst þannig að ég er mjög ánægður," sagði Eriksson.