Innlent

Tekur ábyrgð á dómsmálaráðherra

MYND/Stöð 2/NFS
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segist fyllilega taka ábyrgð á dómsmálaráðherra þrátt fyrir ummæli hans á heimasíðu um að réttarkerfið hefði ekki sagt sitt síðasta orð í Baugsmálinu. Hann segir dóminn í gær mikinn áfellisdóm yfir lögreglu og ákæruvaldinu og fagnar því að málið sé komið á borð ríkissaksóknara. Þetta kom fram á fundi sem forsætisráðherra hélt með blaðamönnum efti hádegið í dag. Halldór kvaðst vænta þess að Baugsmálið yrði nú unnið fljótt og vel hjá ríkissaksóknara. Dómurinn væri harðorður og vekti upp ýmsar spurningar. Sem gömlum endurskoðanda þætti honum til að mynda sérkennilegt að menn blönduðu saman fjárdrætti og meintum ólöglegum lánum. Það væri hins vegar ekki ríkisstjórnarinnar að blanda sér í störf ákæruvaldsins. Hann teldi dómsmálaráðherra ekki hafa gert það með ummælum sínum. Áfellisdómur yfir ákæruvaldinu gæti auk þess aldrei orðið áfellisdómur yfir ráðherranum þar sem ákæruvaldið væri sjálfstætt, sagði Halldór ennfremur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×