Innlent

KB banki hækki sjálfur vexti

Búast má við að vextir á íbúðalánum Íbúðalánasjóðs hækki í árslok en Hallur Magnússon, sviðsstjóri þróunarsviðs hjá Íbúðalánasjóði, segir samt nær fyrir KB banka að hækka vexti á sínum lánum. Þenslan sé jú sprottin upp úr óheftum lánum bankanna.

Steingrímur Arnar Finnsson, hagfræðingur hjá Greiningardeild KB banka, sagði í fréttum í gær að Seðlabankanum hefði ekki tekist að stemma stigu við verðbólgunni. Gera mætti ráð fyrir að stýrivextir myndu hækka í desember og á næsta ári en til viðbótar mætti gera ráð fyrir hækkun vaxta hjá Íbúðalánasjóði.

Hallur Magnússon, sviðsstjóri þróunarsviðs hjá Íbúðalánasjóði, segir að sjóðurinn geti ekki hækkað eða lækkað vexti að vild. Núverandi vextir upp á 4,15 prósent byggi á síðasta útboði að viðbættu 0,6 prósenta álagi og lán sjóðsins séu eingöngu veitt til kaupa á húsnæði. Lán KB banka með 4,15 prósenta vöxtum sé ekki eingöngu veitt til kaupa heldur líka í endurfjármögnun þannig að réttast væri að KB banki riði sjálfur á vaðið og hækkaði vexti.

Hallur segir hinsvegar ljóst að vextir Íbúðalánasjóðs muni hækka eitthvað í lokaútboði sjóðsins fyrir áramót en ekki sé vitað hversu mikið þeir muni hækka eða hvenær útboðið muni fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×