Sport

Hótar hörðum refsingum

Sepp Blatter var harðorður í garð Tyrkjanna í dag
Sepp Blatter var harðorður í garð Tyrkjanna í dag NordicPhotos/GettyImages

Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að opinber rannsókn sé hafin á ólátunum eftir leik Svisslendinga og Tyrkja í Istanbul í gær og segir að stefnt sé að því að niðurstaða liggi fyrir þann 9. desember. Blatter hefur hótað því að beita þá sem að málinu koma hörðum refsingum, en Tyrkirnir saka hann um hlutdrægni vegna þjóðernis síns.

"Ég segi ykkur sem forseti FIFA, en ekki sem Svisslendingur, við munum bregðast við þessu og það með hörku. Þessi læti voru svo sannarlega á skjön við yfirlýsta stefnu okkar um drengilega keppni og refsingar hlutaðeigandi gætu orðið allt frá aðvörunum til alvarlegra keppnisbanna. Rannsóknin mun svo væntanlega leiða í ljós hvort gripið verður til aðgerða á hendur Svisslendingum líka," sagði Blatter.

Varaforseti tyrkneska knattspyrnusambandsins átti ekki til orð yfir yfirlýsingum Blatter og sagðist vonsvikinn með þau. "Yfirlýsingar Blatters voru mikil vonbrigði og óviðeigandi. Það er ekki hægt að kenna Tyrkjum um allt sem gerðist á vellinum og ég held að Blatter hafi verið að gefa út yfirlýsingu til landa sinna með orðum sínum," sagði Sekip Mosturglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×