Sport

Crouch þarf að vera grimmari

NordicPhotos/GettyImages

Markakóngurinn Ian Rush hefur góð ráð handa Peter Crouch, framherja Liverpool, en hann segir hinn lappalanga Crouch skorta eigingirni og grimmd til að skora mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Crouch hefur enn ekki skoraði mark í nítján leikjum það sem af er leiktíð og um helgina klúðraði hann vítaspyrnu sem auðveldlega hefði getað opnað markareikninginn fyrir hann.

"Hann skortir bara sjálfstraust. Hann verður að vera grimmari og þarf að hugsa meira um sjálfan sig," sagði Ian Rush um Crouch, en Rush ætti að vera maður sem veit um hvað hann er að tala þegar kemur að því að skora mörk fyrir Liverpool.

"Um leið og hann skorar fyrsta markið sitt, verður allt í lagi með hann, hann er nákvæmlega sami leikmaður og hann var í fyrra þegar hann raðaði inn mörkunum. Þetta snýst bara um sjálfstraust. Ég lenti í þessu sjálfur þegar ég byrjaði hjá Liverpool, en ég hugsaði með mér að úr því að liðið er að vinna, skiptir það ekki máli. Ég var hinsvegar tekinn inn á teppi og mér var sagt að vera eigingjarn, því mitt hlutverk væri að skora mörk," sagði Rush, sem virðist hafa tekið stjóra sinn á orðinu ef marka má þann fjölda marka sem hann skoraði fyrir Liverpool.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×