Sport

Lét fjölmiðlamenn heyra það

Sir Alex Ferguson er orðinn langþreyttur á gagnrýni fjölmiðla á lið sitt
Sir Alex Ferguson er orðinn langþreyttur á gagnrýni fjölmiðla á lið sitt NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segir að fjölmiðlar séu á hausaveiðum þegar kemur að því að fjalla um Manchester United og segir þá gagnrýni sem lið hans hefur fengið undanfarið keyra úr hófi fram. Sá gamli stormaði út af blaðamannafundi í dag eftir að hafa aðeins svarað einni spurningu, en lið hans mætir Wigan í úrvalsdeildinni annað kvöld.

"Fjölmiðlamenn hata Manchester United," sagði hann áður en hann gekk á dyr á fundinum í dag. "Þetta lið hefur alltaf verið gagnrýnt harðlega og það fylgir því líklega að vera svona stórt félag. Það er skiljanlegt að við séum gagnrýndir, en það keyrir úr hófi fram um þessar mundir og það er farið að skemma út frá sér hjá félaginu. Ég held að stuðningsmenn liðsins geri sér grein fyrir þessu og ég held að þeir falli ekki í þá gryfju að fara að trúa öllu sem skrifað er í blöðin," sagði Ferguson.

Þrátt fyrir að gengið United í ár hafi ekki verið í samræmi við væntingar, benti Ferguson á þá staðreynd að liðið væri á svipuðu róli og undanfarin ár. "Ef þið skoðið árangur okkar á þessum tímapunkti, er hann betri en á fjórum af síðustu sex tímabilum og því finnst mér engin ástæða til að vera að örvænta. Við erum bara í sömu klemmu og önnur lið í toppbaráttunni, Chelsea tapar ekki stigum og það er vandamál allra liða í deildinni - ekki bara okkar vandamál," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×