Innlent

Undirritaður fríverslunarsamningur milli EFTA og Suður Kóreu

Geir H. Haarde undirritar samninginn fyrir Íslands hönd
Geir H. Haarde undirritar samninginn fyrir Íslands hönd

Í dag var undirritaður fríverslunarsamningur EFTA ríkjanna og Suður Kóreu. Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. Undirritunin fór fram í Hong Kong þar sem ráðherrarnir sitja nú ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Fríverslunarsamningurinn er víðtækur og nær til vöru- og þjónustuviðskipta, samkeppnismála, hugverkaréttinda og opinberra innkaupa. Einnig inniheldur hann ákvæði um lausn ágreiningsmála milli aðila. Samningurinn kveður á um fulla fríverslun með almennar framleiðsluvörur og leiðir til niðurfellingar tolla af flestum mikilvægustu útflutningsvörum Íslands á þessu markaðssvæði. Í fáeinum tilvikum reyndist nauðsynlegt að kveða á um nokkurn aðlögunartíma vegna tollalækkana ellegar að kveða á um endurskoðun að tilteknum tíma liðnum. Þess er vænst að samningurinn geti leitt til 20-25% aukningar á viðskiptum milli EFTA ríkjanna og Suður Kóreu. Suður Kórea er þriðja stærsta hagkerfið í Asíu og árið 2004 námu viðskipti Suður Kóreu og EFTA um 2,7 milljörðum bandaríkjadala.

Í tengslum við gerð fríverslunarsamningsins var samið tvíhliða um viðskipti með landbúnaðarvörur auk þess sem Ísland, Sviss og Liechtenstein gerðu sameiginlegan fjárfestingarsamning við Suður Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×