Sport

Íhugar að leggja skóna á hilluna

Duncan Ferguson er að hugsa um að hætta í vetur, en David Moyes er að reyna að fá hann ofan af því
Duncan Ferguson er að hugsa um að hætta í vetur, en David Moyes er að reyna að fá hann ofan af því NordicPhotos/GettyImages

David Moyes, stjóri Everton, segir að framherjinn Duncan Ferguson sé að íhuga að hætta að leika knattspyrnu því hann sé orðinn langþreyttur á fjölda meiðsla sem hafa þjakað hann lengi.

"Duncan á erfitt uppdráttar um þessar mundir og er að skoða framhaldið. Hann mun gera upp hug sinn í janúar og svo gæti farið að hann hætti jafnvel um það leiti. Honum þykir hann ekki hafa það fram að færa sem hann hafði áður og vill ekki bregðast liðinu," sagði Moyes.

Ferguson hefur átt við meiðsli á læri og mjöðm að stríða og hafði ætlað að hætta næsta sumar þegar samningur hans rennur út, en stjóri hans vill umfram allt að hann haldi áfram.

"Ég hef beðið hann að taka sér tíma í að ákveða þetta, því við þurfum svo sannarlega á honum að halda ef hann getur yfir höfuð spilað. Það sýnir góðan karakter hjá honum að hann skyldi koma til mín og ræða þetta, hann hefur verið mjög opinn og hreinskilinn um stöðu mála. Honum þykir hann bara ekki vera í toppformi núna og er dálítið leiður yfir því, en ég tala við hann reglulega," sagði Moyes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×