Freddy Shepherd, stjórnarformaður Newcastle, hefur þvertekið fyrir þær fregnir að sóknarmaðurinn Albert Luque sé á förum aftur heim til Spánar. Hinn 27 ára gamli framherji var keyptur á 9,5 milljónir punda í sumar, en hefur aðeins spilað örfáa leiki fyrir Newcastle eftir að hann meiddist á læri snemma á leiktíðinni.
"Þessar sögusagnir eru þvaður og uppspuni frá upphafi til enda. Ég veit ekki hvernig fólki dettur í hug að við ætlum að selja leikmann sem við tjölduðum öllu til að landa fyrir nokkrum mánuðum. Luque er partur af framtíðaráformum félagsins og við eigum enn eftir að sjá það besta frá honum, enda var hann á sínum tíma talinn einn besti leikmaður Spánar," sagði Shepherd.