Erlent

Viðbúnaðarstig í London hækkað

Leitin að þeim sem gerðu árásirnar í Lundúnum heldur áfram, en fyrrverandi lögreglustjóri Lundúna telur hryðjuverkamennina innlenda. Enn er reynt að bjarga líkum úr lestargöngum við King's Cross, við erfiðar aðstæður. Viðbúnaðarstigið hefur nú verið hækkað upp á hæsta stig í Bretlandi, en það var lækkað skömmu eftir þingkosningarnar í maí. Öryggissérfræðingar BBC segja þetta til marks um að hætta sé talin á frekari árásum. Enn er leitað líka í lestargöngum við King's Cross, þar sem aðstæður eru allar mjög erfiðar. Björgunarmenn hafa átt mjög erfitt með að athafna sig og því er ekki enn vitað hversu mörg lík eru í göngunum. Ekki færri en tuttugu og fimm er enn saknað. Fyrrverandi lögreglustjóri Lundúnaborgar, John Stevens, skrifar grein í dagblað í dag þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að yfirgnæfandi líkur séu á að árásarmennirnir séu breskir, en ekki útlendingar. Allt tal um útlenda árásarmenn sé draumóratal, því mestar líkur séu á því að breskir þegnar, sem hlotið hafi þjálfun í búðum al-Qaeda, hafi verið að verki. Að Stevens sögn er talið að um þrjú þúsund breskir ríkisborgarar hafi sótt slíkar búðir. Hann segir jafnframt að lögreglan hafi komið í veg fyrir átta árásir af sama tagi á undanförnum fimm árum. Þrjár hreyfingar íslamskra öfgamanna hafa gengist við tilræðunum í Lundúnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×