Innlent

Eiginmaðurinn missti stjórn á sér

Sálfræðingur sagðist í Héraðsdómi Reykjaness rétt fyrir hádegi að hann teldi að Magnús Einarsson, sem varð konu sinni að bana á heimili þeirra í Hamraborg, hafi ekki undirbúið morðið heldur hafi hann misst stjórn á sér. Aðalmeðferð í málinu gegn Magnúsi, sem hófst á föstudag, hélt áfram í morgun. Sálfræðingurinn sagðist telja Magnús sakhæfan en segir lýsingu hans á því að kona hans hafi beðið hann um að binda endi líf sitt óvenjulega og lítt trúanlega. Kona sem býr í sama húsi og hjónin bjuggu í bar m.a. vitni í morgun. Hún sagði að skerandi angistaróp eins og úr verstu hryllingsmynd hefðu borist út á stigagang frá íbúð fólksins. Hún greindi líka að hin látna hefði öskrað „Láttu mig vera, láttu mig vera, láttu mig í friði.“ Í kjölfarið hefði hún heyrt mikla dynki. Vitnisburðurinn er því talinn grafa undan þeirri vörn sakbornings að hann hafi hjálpað eiginkonu sinni að deyja því hún hafi beðið hann um það. Nánar verður fjallað um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×