
Innlent
Klára skuldir vegna Tímans

Framsóknarflokkurinn greiðir á þessu ári síðustu afborganir af lánum sem tekin voru til að fjármagna skuldir vegna útgáfu dagblaðsins Tímans sem flokkurinn hætti að gefa út fyrir tólf árum. Þetta kom fram í ræðu framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins á flokksþingi sem hófst í morgun. 28. flokksþing Framsóknarflokksins var sett á Nordica-hóteli klukkan tíu í morgun en við setninguna var boðið upp á ýmis skemmtiatriði. 847 fulltrúar eiga seturétt á flokksþinginu og hafa 750 framsóknarmenn skilað þátttökutilkynningu. Bein útsending er frá flokksþinginu í opinni dagskrá á sjónvarsstöðinni Sýn. Fjölmargar ályktanir sem varða atvinnu- og efnahagsmál, fjölskylduna, velferðarmál og umhverfið liggja fyrir flokksþinginu og er búist við átökum um margar þeirra, m.a. í tengslum við umræðuna um Evrópumálin og hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þegar hefur komið í ljós djúpstæður ágreiningur meðal forystu flokksins um hveru langt skuli ganga í þeim efnum. Í ræðu Sigurðar Eyþórssonar, framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins, var greint frá greiðslum vegna skulda flokksins í tengslum við útgáfu á dagblaðinu Tímanum sem flokkurinn hætti að gefa út fyrir meira en áratug. Hann sagði síðustu afborganir af lánum verða greiddar á þessu ári. Aðspurður hvers vegna það sé gert svo löngu eftir að útgáfunni var hætt segir Sigurður að stórar skuldir þurfi að borga niður á löngum tíma. Hann kveðst ekki hafa á hraðbergi töluna yfir heildarskuldir vegna Tímans. Í ræðu framkvæmdastjórans kom jafnframt fram að kosningabarátta Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar árið 2003 hefði kostað 68 milljónir.