Innlent

Endurvinnsla auk kjaftasagna

Davíð Oddsson utanríkisráðherra segir ekkert undarlegt við það að hæsta tilboði í Landsbankann hafi ekki verið tekið á sínum tíma. Honum virðist umfjöllun Fréttablaðsins um einkavæðinguna vera endurvinnsla á gamalli skýrslu með nokkrum kjaftasögum sem lítið sé til í. Í umfjöllun Fréttablaðsins er því meðal annars haldið fram að stjórnarsamstarfið hafi verið í hættu á meðan á ferlinu stóð og að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi átt beinan þátt í að stýra bönkunum í hendur þóknanlegra aðila. Davíð segist ekki hafa lesið greinarnar ítarlega en sýnist sem svo að þetta sé meira umbúðir en efni. Þetta sé í meginefnum skýrsla Ríkisendurskoðunar, án þess að þess sé getið, sem var búið að birta og ræða í þinginu. Svo sé búið að bæta við nokkrum kjaftasögum eins og „rjóma á súkkulaðiköku“. Í þeim sögum sé hins vegar lítið til að sögn Davíðs. Það að hæsta tilboði var ekki tekið í Landsbankann er meðal röksemda fyrir því að kaupendur hafi verið handvaldir. Davíð segir öll verðin hafa verið innan skekkjumarka miðað við stærð verkefnisins, auk þess sem litið var til fleiri hluta en verðsins vegna mikilvægis Landsbankans sem stofnunar, s.s. reynslu manna, fjármuna og trygginga. Davíð segir menn vissulega hafa lært af reynslunni og þeirri gagnrýni sem fram hefur komið og tekið sé tillit til hennar við söluna á Símanum. Nú sé reynt að einangra aðra þætti en verðið á fyrri stigum tilboðsferilsins þannig að búið verði að bera hugsanlega kaupendur saman hvað það varðar, þannig að þegar „umslagið sé opnað“ geti krónutalan ein ráðið ferðinni. Þá sé líka erfiðara að halda því fram að utanríkisráðherra og forsætisráðherra velji kaupendur, þó einhverjir muni líklega reyna það að sögn Davíðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×