Innlent

Ávinningur almennings nánast engin

"Það er ljóst að þetta er ekki alveg það sem menn stefndu að með þessu frumvarpi í upphafi," segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðareigenda, vegna þeirra ummæla Geirs Haarde, fjármálaráðherra, að á óvart komi að díselolía verði dýrari en bensín eftir breytingar á lögum um olíu- og kílómetragjald sem gildi tekur í júlí. Reiknað hefur verið út að eftir breytingarnar mun lítri af díselolíu kosta 104 krónur hið minnsta en þá er ekki reiknað með álagningu olíufélaganna. Bensínlítrinn í dag til samanburðar kostar rúmlega 100 krónur. Ein meginhugmyndin með breytingunni þegar hún var ákveðin var að hvetja almenning í landinu til að fjárfesta í umhverfisvænni bílum en díselbílar menga minna en bensínbílar og nýta eldsneytið betur. Runólfur segir að sú hugmynd falli um sjálft sig meðan díselverðið helst hærra eða svipað og bensínverð. "Fyrir utan hærra eða svipað eldsneytisverð eru díselbílar að jafnaði dýrari í kaupum en bensínbílar svo ávinningur almennings er nánast enginn eins og staðan er í dag."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×