Innlent

Ríkið gæti þurft að borga meira

Launaábyrgðir ríkisins fyrir Bandaríkjaher gætu aukist um tugi milljóna ef Rafiðnaðarsambandið vinnur mál á hendur ríkinu í Hæstarétti. Í vor vann sambandið málið í Héraðsdómi, en því var áfrýjað og verður flutt í Hæstarétti í október. Nú þegar skulda Bandaríkin ríkinu tæpar sex milljónir vegna launa sem herinn vill ekki borga og ríkið hleypur undir bagga með, eftir dóm sem féll í fyrrasumar. "Við teljum að starfsmannahald Varnarliðsins hafi brotið úrskurð kaupskrárnefndar með því að fella burt ákveðin atriði á borð við bíla- og ferðapeninga," segir Einar Jón Ólafsson, starfsmaður á skrifstofu Rafiðnaðarsambandsins, málið snertir upp undir 100 starfsmenn Varnarliðsins. Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður sem fór með málið í Héraði segir tekist á um hvor Varnarliðið geti sjálft sagt upp hluta af ráðningarkjörum, eða hvort til þurfi að koma úrskurður kaupskrárnefndar. "Í heild snýst þetta um einhverja tugi milljóna, en upphæðir eru misháar eftir starfsmönnum," segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×