Innlent

Yfir hundrað íbúa rýmdu hús sín

Fimmtíu íbúar úr fimmtán húsum við Urðarstíg, Mýrar og Hóla á Patreksfirði þurftu að yfirgefa heimili sín vegna snjóflóðahættu og leituðu íbúar til ættingja og vina í bænum. Í Bolungarvík voru sjö hús rýmd auk eins sveitabæjar og fimmtán hús voru rýmd í Ísafjarðarbæ. Þrjú snjóflóð féllu fyrir ofan byggð í Bolungarvík í fyrrinótt og gærmorgun og stöðvaðist eitt þeirra tíu metra frá íbúðarhúsi við Dísarland. Hörður Þór Sigurðsson, á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, segir snjóflóðið sem stöðvaðist skammt frá húsi við Dísarland hafa verið þunnt þar sem nýr snjór hafi runnið ofan á eldri og harðari snjó. Flóðið hafi því ekki verið sérstaklega hættulegt en hafi þó gefið fulla ástæðu til rýmingar. Rýmd voru nokkur hús við Dísarland og Traðarland auk þess sem bæirnir Tröð og Geirastaðir voru rýmdir. Hörður segir rýmingu hafi verið ákveðna á Patreksfirði þar sem mikið hafi snjóað í gærmorgun auk þess sem spáin fyrir síðustu nótt hafi hljóðað upp á norðanátt. Þá hafi nokkuð víðfeðmt flóð fallið fyrir ofan Patreksfjörð í síðustu viku en stöðvaðist á veginum á milli Urðargötu og Mýra. Viðbúnaðarstig var á öllum Vestfjörðum í gær fyrir utan svæðin þar sem var hættuástand og gripið var til rýminga. Fundir hjá almannavarnanefndum verða haldnir í dag þar sem staðan verður metin að nýju og athugað hvort hægt verði að hleypa fólki til síns heima



Fleiri fréttir

Sjá meira


×